Færsluflokkur: Lífstíll

Bíladraumur.

Mig dreymdi nýverið dæmigerðan draum um ástandið í þjóðfélaginu og hvaða áhrif kreppan hefur á sálarlífið okkar. Mér fannst ég vera í bíl sem ég átti. Hafði ég skipt á gamla bílnum mínum (gamall, en samt Benz) fyrir þennan sem mér fannst ég vera að keyra. Einhver var með mér í bílnum og fannst ekki mikið til bílsins koma. Ég var eitthvað að reina að verja hann, jú hann var ekki með neitt mælaborð, þröngur að innan, litlar rúður, eða enginn óþarfi. En vildi ég meina, hann komst alla leið og var það ekki aðalatriðið? Bíllinn er tákn um ferð mína í gegnum lífið og draumurinn segir allt um líf okkar í kreppunni. Við spörum við okkar þar sem við getum, hendum öllum óþarfa því aðalatriðið er jú að við komumst alla leið þó að það sé í aðeins minna bólstruðum sætum.bill.jpg

Fjólublár.

Mig dreymdi frekar ruglingslegan draum um daginn.  Anna hvort var ég að reyna að ráða draum fyrir einhvern annan eða það var ég sjálf sem hafði dreymt drauminn.  Ég var sem sagt að velta því fyrir mér sofandi, hvað liturinn fjólublár gæti táknað í draumi.  Mjög sérstakt, eða eins og meðvitundin væri að reyna að fá svar frá dulvitundinni.  þá kom mér sú sterka sannfæring að fjólublátt þýddi sársauka í draumi.  Sársauka vegna ástar eða jafnvel haturs, gæti verið hvorutveggja.  Eða  andleg kvöl af ýmsum toga.  Þá vitið þið það ef ykkur fer að dreyma fjólublátt.

Draumur frænku minnar.

frænku mína dreymdi nú nýlega að stór fylling dytti úr jaxli vinstra megin í neðri gómi.  Hún horfði á hana í lófanum mjallahvíta en í tveimur pörtum.  Hún ákvað að spyrja mig hvað þetta gæti þýtt en á leiðinni til mín kom hún að stórri tjörn.  Ég var hinum megin við tjörnina en Bjarni maðurinn minn hennar megin við tjörnina, svo hún ákvað að spyrja hann í staðinn um merkingu draumsins.

Í mínum draumum þýðir það að missa tennur fyrir dauða einhvers sem er skyldur mér.  Myndi ég ráða þennan draum líka þannig, en þar sem tönnin datt ekki úr heldur fyllingin finnst mér líklegra, í þessu tilviki, að um einhvern tengdan ættingja sé að ræða, t.d. tengdafjölskyldu ættingja.  Og þar sem fyllingin kom í tveimur pörtum úr sömu tönninni er eins og um hjón sé að ræða.  Kannski fullorna tengdaforeldra sem myndu þá fara með stuttu millibili.  Vatnið eða tjörnin sem kemur fyrir í draumnum gæti verið tákn um undirmeðvitundina. Það að ég er hinum megin við vatnið gæti verið fyrir því að við séum nú ekki alltaf sammála um hlutina við frænkurnar.  En þar sem þessi draumur snýst í upphafi um dauða, finnst mér sú hugmynd spennandi að vatnið eða tjörnin merki eilífðarinnar og þetta sé fyrir þeirri röð sem við hverfum úr þessum heimi.  Annað hvort ég fyrst og frænka mín og Bjarni seinna.  Eða að þau bæði fari á undan mér.  Við fáum nú vonandi seint að vita hvort ráðning mín á þessum draumi sé rétt.


Kóngulóadraumur.

Vinkonu mína eina dreymdi um daginn draum sem henni fannst óvenjulega skýr þegar hún vaknaði.  Henni fannst sem hún væri heima hjá sér, en það var samt ekki eins og það er.  Húsnæðið var óvenjustórt og fullt að fólki.  Hurð er í endanum á svefnherbergisganginum sem er að geymslu og þegar hún opnaðist þær kom fullt af svörtum kóngulóm skríðandi á móti henni og inn í íbúðina.  Fólkinu sem fyrir var í íbúðinni virtist ekkert finnast þetta skrítið eða ógeðslegt.   Henni fannst hún vera liggjandi þegar þrjár kóngulær komu og skriðu upp eftir fætinum á henni.  Hún náði að kremja eina með tánni en henni fannst sem fullt af fleirum væru á leiðinni. 

609887-Japanese-spider-crab-2

Það er mjög misjafnt hvað draumráðningabækur segja um kóngulær eða skordýr í draumi.  Mín persónulega ráðning, hún virkar allavega fyrir mína drauma, er; að kóngulær eru alltaf fyrir rifrildum eða ágreiningi.  Í þessu tilviki myndi ég segja að ágreiningurinn væri inni á heimilinu.  Það eru fullt af alvarlegum aðsteðjandi vandamálum (svörtum) sem dreymandinn finnst hann einn um að sjá.  Aðrir heimilismeðlimir virðast ekki gefa þeim neinn gaum.  Ótti dreymandans um að ef hann opni umræðuna (hurð) muni aðeins fleiri bætast í hópinn.  Bjarta hliðin er sú að viljinn til þess að vinna úr, eða drepa niður vandamálin er fyrir hendi þó svo dreymandanum finnist hann eiga við ofurafl að etja.   


Vegurinn til velmegunar.

Kunningi minn einn, sem vinnur nú sem yfirmaður hjá símanum, spurði mig álits á draum sem hann hefði dreymt.  Draumurinn var einhvernvegin svona:  Hann var að keyra eftir þröngum fjallvegi, ég sá fyrir mér veginn til Bolungavíkur eins og hann lýsti þessu.  Búin að keyra nokkra stund þegar allt  í einu kemur þetta svaka snjóflóð sem fellur á veginn fyrir framan hann þannig að hann komst ekki með neinu móti áfram, en slapp þó lifandi.  Þennan draum réð ég þannig að eitthvað myndi standa í veginum fyrir honum og hann þyrfti að venda sínu kvæði í kross.  En nú skýtur þessum draumi upp í huga mér því nú er hann kominn fram.  Við getum ekki haldið áfram veginn til velmegunar heldur þurfum við að snúa við og fara veg sparnaðar og aðhaldsemi.  

Dauðir fiskar.

big_fish[1]Það kom fyrirspurn inn á gestabókina um merkingu  þess að dreyma dauða fiska.  Það að dreyma dauða fiska boðar yfirleitt vonbrigði og kjarkleysi.  Dauðir fiskar geta líka verið tákn um djúpstæðan ótta og kvíða sem aldrei kemur upp á yfirborðið.  Það sem í þessum draumi voru fiskarnir í umhverfinu eru þeir ekki fyrir vonbrigðum fyrir dreymandann heldur í umhverfi hans. Á þessum krepputímum er ekkert óeðlilegt að hjá okkur flestum sé undirliggjandi kvíði.  En þessi draumur segir líka dreymandanum að einhver honum nákominn/nákomnir þurfi verulega á uppörvun að halda og sé verulega illa staddur. 

Kreppudraumur

Þennan draum dreymdi mig þegar ég var nýkominn heim frá Seychells og var ekki alveg komin inn í kreppuumhverfið en samt að reyna að gera mér grein fyrir því. Mér fannst sem ég væri að koma að utan eftir nokkurn tíma.  Ég var ein og mér fannst íbúðin mín mjög stór og skiptast í fjögur rými sem voru hálfopin og sem öll tengdust með einhverskonar garð.  Ég hafði eitt rýmið fyrir mig, en hafði leigt einstaklingum hin.  Svo þegar ég geng um sé ég fullt af sofandi börnum í rúminu en líka á gólfinu í einu rýminu.  Daginn eftir hitti ég svo móðir þeirra sem ég kannaðist ekkert við.  Ég hafði leigt ungum manni sem hafði farið og framleigt þessari konu með sjö drengi, allir ljósrauðhærðir.  Móðirin var einstæð ágötunni og pabbinn hlaupinn í burtu.  Ég sagði henni að ég leigði aðeins einstaklingum og svona mörg börn væru svo truflandi fyrir hina eigendurna.  Hún grátbað mig um að fá að vera og strákarnir yrðu þægir.  Þeir ynnu í sirkus allan daginn og voru þar með hárkollur aðeins dekkri rauðar en þeirra eigið hár.  Svo ég leifði henni að vera, fannst ég ekki geta hent henni út.

Þennan draum ræð ég þannig að drengirnir séu kreppan eða kreppuárin og að þau verði sjö, fyrstu stærst og fari smá minnkandi.  Að þeir vinni í sirkus!!  Hárkollurnar eru yfirhylmingarnar þar sem breytt er yfir aðstæðurnar og þær gerðar út fyrir að vera eitthvað sem þær alls ekki eru. 


Konan með eggjakörfuna.

Mér finnst tilvalið að fyrsti draumurinn á þessari síðu sé elsti draumurinn sem ég þekki.  Draumur afa míns; Jónatans Guðmundssonar.  Þennan draum dreymdi hann í kringum 1905 þegar hann var í Vestmannaeyjum á leiðinni til Noregs, en  hann fór aldrei.   Kannski þessi draumur hafi breytt lífi hans og um leið þúsund afkomanda hans.  Í draumnum kemur til hans kona sem hann hafði aldrei séð áður.  Konan var ung og falleg með miklar ljósar fléttur og í fanginu hélt hún á körfu sem var full af eggjum.  Afi vissi strax að þarna væri tilvonandi konan hans og ævifélagi kominn og eggin í körfunni væru börnin þeirra.  Stuttu seinna er hann að spila á harmonikkuna á balli í Vestmannaeyjum þá kemur þessi kona inn og hann þekkti hana strax úr draumnum og það var amma.  Þau giftu sig stuttu seinna og bjuggu saman alla tíð og eignuðust saman þrettán börn og yfir þúsund afkomendur.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband